miðvikudagur, mars 28, 2007
vekjaraklukkan
Skerandi hljóðið öskraði aftur, aftur og aftur. Helvítis vekjaraklukkan. Hvers vegna vakna ég ekki við hana? Hún er búin að hringja djöfulli lengi. Alltof lengi. Ég sest upp í rúminu en langar samt ekki lengra. Væri ekki bara best að sleppa því öllu? En ekki núna. Ég næ ekki að sannfæra sjálfan mig í dag. Ég drattast inn í kalda sturtuna. Það er eitthvað að vatninu hérna, verður seint heitt. Jafnvel bara ekki. Þegar ég sé bílinn fyrir utan nenni ég ekki að vera pirraður þótt hann sé allur út í snjó. Ég bara sé ekki tilganginn lengur. Sleppi því líka að skafa. Nema örlítið gat á framrúðuna. Ég nenni heldur ekki að opna rúðuna eftir að ég kveiki mér í sígarettunni. Ekki eins og einhver annar sé að fara að keyra bílinn. Lonesome Town með helvítis rauðhærða gerpinu. Kósý.
Ég hef ekki hugmynd hvað gerist í vinnunni. Augun límd á klukkuna á veggnum. Stálputtarnir snúandi sér í kringum höndina sem þeir fá aldrei. Hún er með þá í krukku.
Klukkan er löngu orðin fjögur. Ég er ennþá hér. Hvenær ætlar þetta fólk að fatta að það er ekkert allt hægt. Þótt einhver vilji sé fyrir hendi. Ég nenni ekki heim. Hver er tilgangurinn í því að vera andvaka. Aftur. Einu sinni enn. Strákarnir að fara á barinn. Til hvers ætti ég að fara með? Hella mig fullan? Til hvers? Ég fer samt. Næ ég kannski að hugsa um eitthvað annað. Eitthvað annað en hana.
Eftir þrjú glös og heilu farmana af hundleiðinlegum samræðum stend ég upp. Kominn í ágætis skap, gæti jafnvel sofnað. Geng í átt að hurðinni, hún kemur á móti mér. Djöfullinn. Reyni að vera næs. Tekst það bara ágætlega. Get samt ekki hætt að hugsa um svefninn sem hún stal frá mér rétt í þessu. Helvítis. Ömurlegt að geta ekki fengið það sem maður vill.
Myshkin ♥
10:02 e.h.