miðvikudagur, apríl 25, 2007
Eitraða rósin
Afhverju viljum við alltaf fá það sem er utan seilingar?
Ég hafði séð rósina í garði nágrannans nú í næstum 6 mánuði. Með þennan fullkomna stilk, blöðin myndu standast hvaða gullinsniðsmælingu sem er og liturinn svo himneskur að ef þú horfðir of lengi fannst þér þú vera kominn einhvert allt annað. Einhvert þar sem þú áttir ekkert að vera. Það sem þú tekur ekki eftir við daglegt áhorf á þessu fallegustu rós sem finnst eru þyrnarnir. Banvænu þyrnarnir. Svo litlir og velmótaðir en skipta svo miklu. Næstum öllu.
Ég ákvað einn daginn að taka rósina, færa hana yfir til mín. Mundi nágranninn taka eftir því?
Nú var rósin komin yfir. Var mesta fegurð garðsins míns. Ég annaðist hana eins og ekkert annað í þessum heimi væri mikilvægara. Alltaf var það kæra rósin mín. Og hún varð enn fegurri. En smá saman tók ég eftir því að hin fallegu blómin mín í kringum kæru rósina mínu byrjuðu að fölna. Og deyja. Ég ákvað að loka augunum. Neita að samþykkja það sem ég og allir sem höfðu séð sáu að var í gangi. Hún var að drepa öll blómin mín.
Að lokum var ekkert eftir nema fölnaður garður. Uppfullur af mold og sandi. Og rósin. Rósin mín heittelskaða. Hversu lengi myndi afneitun duga? Hvað get ég reynt að trúa sjálfum mér um? Rósin var að drepa mig. Að innan. Hún lét allt snúast um að hugsa um hana og passa að laufin yrðu sem fullkomnust. Lauf sem skiptu engu máli. Loksins, mér til mikils greiða, dó rósin mín. Hvað ég syrgði hana lengi, ímyndaði mér að hún væri ennþá í garðinum mínum, blómstrandi sem aldrei fyrr.
Mánuði seinna, sá ég nýja rós læðast upp úr jörðinni hjá nágranna mínum. Ég fylgdist með hverri hreyfingu rósarinnar úr fölnaða garðinum mínum. Ég trúði því ekki fyrst, en það var óneitanlegt.
Rósin mín var komin aftur. Í garð nágranna míns.
Myshkin ♥
7:23 f.h.