fimmtudagur, október 25, 2007
Enn einu sinni; skammdegið

Að rölta um grá og mygluleg stræti miðbæjar Reykjavíkur tekur á, það verður að taka á. Útsýnið út um gluggann á efri hæð litla, hvíta, fúaða kofans í Lækjargötunni er líka búið að breytast. Grænu túnin sesm voru uppfull af lífi og ástföngnu pörin labbandi yfir þau, næstum kominn á Fríkirkjuveginn, eru horfin. Nú eru örfáir Kvenskælingjar sem bölva því að strætisvagnarnir þeirra stöðvi ekki nær þeirra litla sæta skóla það eina sem maður sér. Manni langar ekki lengur að skella sér út til ánægðra andlitanna og verða eitt þeirra. Maður vill bara fara aftur að sofa. Sofa þetta frá sér. Væri ekki sniðugt að leggjast í dvala eins og birnirnir?

Hinsvegar hefur skammdegið oft góða hluti í för með sér, allavega hjá mér. Eina stundina er manni að dreyma og þá næstu er maður að upplifa drauminn. Nýir og nýir hlutir að verða til og maður getur ekki annað en brosað svona örlítið. En aftur á móti; allt á sér endi. Gamla klisjan um upphafið og endinn virðist allavega vera ófjarri sannleikanum. Mun líða á löngu þar til maður spyr sig: Afhverju er mig ekki bara að dreyma ennþá?

En ég hef ákveðið að gleyma því í bili og lifa bara í draumnum brosandi. Í bili.

Myshkin ♥ 5:30 e.h.