fimmtudagur, nóvember 08, 2007
amor mortis

Hún gat ekki hafa meint þetta, hugsaði ég þegar ég lá í stofu 45 á deild E. Ég velti reyndar fyrir mér hvernig ég gæti verið að hugsa svona skýrt aðeins örfáum mínútum eftir að ég hafði fengið þriðja skammtinn af morfíni. Ég hafði heyrt að það væri yndislegt að uppfyllast af þessu hættulega efni, maður algjörlega hyrfi einhvert annað. Eða bara flýði inn í sjálfan sig. En ég gerði það ekki, ég gat ekki hætt að hugsa um þetta.

Það var þó varla hægt að segja að ég væri í molum, en sárið á síðunni var helvíti ljótt. Og mig klæjaði svona líka helvíti mikið í það. Aginn þurfti að vera djöfulli mikill til að maður klóraði sér ekki. Úff. Hvern var ég að blekkja, ekki einsog ég gæti klórað mér þótt ég v ildi, ég var algjörlega pikkfastur.

Taktur lífs mín tikkaði sinn vanagang á veggnum. Þegar eina sem þú getur horft á er veggklukkann verður veggklukkan þú. Eða þú verður veggklukkann, hvortsemer finnst þér allavega að hún sé það eina sem þú getur treyst á. Stöðugi takturinn í þessu fallvalta lífi.

Enginn hafði komið í heimsókn. Auðvitað hafði ég ekki verið þarna nema í nokkra klukkutíma en ég hefði svosem búist við nokkrum hlýlegum andlitum segjandi mér að þetta yrði allt í lagi. Auðvitað yrði þetta aldrei allt í lagi, en það er ágætt að heyra einhvern segja það. Bara svona til að maður gæti trúað lyginni í örskamma stund. Yljar manni örlítið um hjartarætur.

Ég sá þó loksins að hurðin byrjaði hallast upp á móti mér, einhver var að koma inn. Ég sá ljósa lokka laumast handan hurðarinnar og sæluylur fór strax um mig allan. Ég vissi það strax, hún var komin. Þegar hún labbaði í átt að rúminu mínu virti ég hana fyrir mér einsog þetta væri í síðasta skipti sem ég myndi sjá hana. Dökkgræn augun sem höfðu að geyma þennan leyndardómsfulla sjarma grípa mann strax, ég gæti starað í þau sem klukkutímum skiptir án þess að vita hvað tímanum liði. Mér þótti vænt um þessi blikandi augu. En ætli það sé ekki skínandi brosið sem virðist aldrei taka sér hlé sem er það mest áberandi, gæti brætt heilu ísjakana. Umkringt þrýstnum og safaríkum vörum sem virtust þrá að vera kysstar, en því miður var það ekki tilgangur heimsóknarinnar. Þegar hún var komin enn nær sá maður ljóst, fíngert hárið flaksast örlítið í gustinum og tíminn hefði getað stoppað. Hún var prinsessan í konungsríkinu sem landkönnuðir höfðu leitað að öldum saman án árangurs, algjör náttúruperla. Og prinsessan mín. Alltaf. Alltaf og aldrei.

Hún lagði höndina á bringuna á mér og spurði hvernig mér liði. Ég kom ekki upp neinu orði. Hvort það var útaf morfínvímunni eða bara vegna endorfínsflæðisins veit ég ekki, en mér hafði ekki liðið betur í margar vikur. Heit og örugg höndin strauk mér aðeins en þegar hún færði sig neðar fann ég fyrir sársauka í síðunni. Einsog undirmeðvitundin hefði sent boð út í líkamann. Ég mátti ekki gleyma, það var hún sem gaf mér þetta sár. Ég var hérna bara útaf henni. Ég þurfti að vakna upp af þessum vonlausa draumi, átta mig á því að þetta yrði aldrei neitt meira, fallöxin beið alltaf í nokkurra metra fjarlægð. Að bíða eftir að fá að láta ljós sitt skína, og það ljós skein vissulega skært.
En mér var sama. Ef hún vildi veita mér þessa ánægju, þótt það væri ekki nema í örfáar mínútur var mér sama. Ég fann að höndin á mér varð örlítið blaut. Ég þurfti ekki að hugsa lengi, ég vissi alveg hvað það var sem komst í tæri við höndina á mér. Sársaukinn varð meiri og meiri. Örlitli hnífurinn hennar var aftur byrjaður að stingast inn í síðuna á mér. Hún hvíslaði eitthvað í eyrað á mér en ég greindi ekki orðin. Það var örugglega eitthvað fallegt, henni einni líkt. Ég reyndi ekki að berjast á móti hárbeittu blaðinu sem virtist sökkva dýpra inn í mig með hverri sekúndunni. Ef þetta var það sem hún vildi var þetta líka það sem ég vildi. Ég myndi gera allt fyrir hana. Ég fann ómótstæðilegan ilminn af henni og gat ekki annað en brosað. Hún var þarna hjá mér. Einmitt einsog ég vildi hafa það. Höndin á mér hélt áfram að blotna en ég var hættur að finna fyrir sársaukanum. Hann var orðinn hluti af mér. Hluti af okkur.

Loksins fann ég að þetta var að verða búið, allur máttur var að hverfa frá mér. Hún hjúfraði sig upp að mér einsog hún væri að reyna að halda mér hjá sér aðeins lengur. En ég gat varla haldið augunum opnum lengur. Augnlokin byrjuðu að síga hægt. En svona vildi ég hafa það, mér gæti ekki hafa liðið betur. Við tvö saman. Augun voru alveg að lokast og ég vissi að það síðasta sem ég myndi væri hún. Yndislegt. Nú lokuðust loksins augun. Ég sá myndina af henni í huganum hverfa hægt og rólega. En brosið var enn á vörum mínum. Hún yrði mín að eilífu.

Tvær hjúkkur komu inn í herbergið, önnur gekk að lífvana búknum og tók púlsinn. ,,Hann er farinn”, sagði hún og hin kinkaði kolli og svaraði: ,,Hann var í of slæmu ástandi, það hlýtur að hafa verið síðasti morfínskammturinn sem fór með hann, það var of mikið”. ,,Það er samt alltaf sorglegt þegar þeir fara svona ungir”” sagði fyrri hjúkkann og dró lakið hægt yfir andlitið sem eitt sinn var mitt.

Myshkin ♥ 11:51 f.h.