fimmtudagur, mars 12, 2009
Svartur Köttur
Hvar ætli hann sé? Klukkan var orðin vel yfir tvö og hann var venjulega malandi fyrir framan arininn um þetta leyti. Ég leit út í niðdimma nóttina og sá varla neitt. Nema það sem endurskinið af tunglinu náði að lýsa ljósarglætu, nokkur einmana tré sem sköpuðu fíngert ískur í vindinum.
Tveimur klukkutímum seinna heyrði ég gætilegt klór á hurðinni. Ég fór og hleypti honum inn, og var ekki ánægður. Ég lét hann heyra það, hann átti ekkert að vera að þvælast svona lengi úti einn um nótt. Hann vissi upp á sig sökina og staulaðist niður a gæruna sína. Lútandi höfði og með skottið á milli lappanna. Ég settist aftur niður og hélt áfram að pára, og rifaði upp sumarið þegar hann gat varla tekið stuttan göngutúr án mín. Hann stökk alltaf upp í stól til mín og hjúfraði sig. Vafði upp á sig litla kleinu og malaði eins og allt væri fullkomið.
Hann gerði þetta ekki lengur. Einu skiptin sem við eyddum saman núorðið, við félagarnir, var þegar ég skammaði hann fyrir að hverfa svo dögum saman eða þegar ég hafði í hótunum við hann til að reyna að ná fram gömlu logunum. Gömlu ástinni. En það rann upp fyrir mér að ég væri þrjóskur og sjálfselskur.
Þegar ég hleypti honum út morguninn eftir tölti hann tignarlega nokkur skref áður en hann stöðvaði og leit til baka. Kolsvört augun voru einlæg og döpur. En við vissum það báðir; Þetta var í síðasta skipti sem við horfðumst í augu.
Myshkin ♥
1:27 f.h.